Tuesday, July 17, 2007

Grunnpasta með tomatbragði

Árið 1997 fór ég í hálfs árs nám til Belfast. Á leiðinni þangað fann ég fína matreiðslubók sem markaðssett var fyrir nemendur sem vilja leggja áherslu á einfalda, ódýran og kjötlausan mat. Ja, grænmetisfæði er það nú reyndar, því í bókinni eru engar fiskuppskriftir heldur. Hún heitir "The Vegetarian Student Grub Guide" (eftir Alastair Williams) og er skemmtileg aflestrar. Lítið er gert úr flókinni matseld og bókin er út í gegn hvetjandi og jafnvel fyndin. Inn á milli eru uppskriftir að ímynduðum mat, eins og Couch potato with beeer (1 television, 1 can of lager, 1 student. Mix the three ingredients until comfortable, then sleep for twelve hours). Fyrir utan örfáa óvænta brandara af þessu tagi eru uppskriftirnar vel marktækar og ein þeirra nýttist mér öðrum fremur mjög vel. Það var uppskriftin að pasta í tómatlagaðri sósu, eins konar grunnpasta (eins og ég kallaði það allar götur síðan). Beint upp úr bókinni (bls. 115) hljómar uppskriftin svona (með minni uppsetningu):

Spaghetti with tomato and basil

Serves 2

2 tbs olive oil
225 g. spaghetti
1 small onion, peeled and chopped
2 cloves of garlic, peeled and chopped
400 g. (1 tin) og tomatoes
6 basil leaves
pinch of sugar
salt
pepper

1. Heat the oil in a saucepan, then fry the onions and garlic for 5 min. or until they have softened.
2. Add the other ingredients and cook for about 15 - 20 mins.
3. Whilst the sauce is cooking prepare the spaghetti according to the instructions on the packet.
4. When the sauce is cooked, pour into a blender and give it a whizz.
5. Drain the pasta and mix thoroughly with the sauce.
6. Grated parmesan can be sprinkled on top if required.

Þessi réttur er gómsætur en leiðbeiningarnar hér að ofan ætti ekki að taka of bókstaflega. Sjálfur hef ég alltaf notað þurrt basil (það dugar vel) og set nógu mikið til að rautt tómatmaukið verður blóðrautt (dökknar). Ég bæti líka örlitlu við af tómatmauki, þynntu út með vatni (eins og hálfur bolli allt í allt) þannig að sósan verði veigameiri. Fjórða lið (maukuninni) hef ég alltaf sleppt. Ég er yfirleitt hlynntur því að finna fyrir matnum.

Þessa uppskrift hef ég gegnum tíðina kallað "Grunnpasta" vegna þess hve tilvalið er að bæta í sósuna ýmsum spennandi hráefnum eftir hendinni. Það sem hefur gefið góða raun gegnum tíðina er: reyktur fiskur, túnfiskur, gular baunir (ekki of mikið), ananas, ólifur og smjörsteiktir sveppir. Allt gefur þetta matnum aukna fyllingu (túnfiskur er í sérstöku uppáhaldi, og þá legg ég áherslu á að mylja hann ekki of smátt. Hann er girnilegri í heillegum smákögglum).

Rétt er að hafa að lokum nokkur orð um meðferð á pasta. Pastað á ekki að mauksjóða heldur gæta þess að það sé áþreifanlegt undir tönn, eða"Al dente". Það á að vera örlítið seigt viðkomu. Maður tékkar bara á því öðru hvoru. Það er ömurlegt að borða mauksoðið pasta sem klessist saman. Það er vatnskennt og óspennandi. Einnig skiptir máli að salta rétt (sem er persónulegt mat) og hella olíu yfir pastað (ólifuolíu) þegar pastað er tilbúið (og búið að hella vatninu af því). Að lokum er mulinn parmesanostur tilvalinn yfir sjálft pastað áður en því er blandað saman við sósuna.

Í raun er meðferðin á pastanu ekki síður mikilvæg en góð sósa. Annars, njótið þess bara að gera tilraunir með þennan rétt. Hann býður upp á það. Hitið svo brauð í ofni og bjóðið upp á ferskar gúrkur eða gúrkusalat með. Það vegur upp á móti tómatbragðinu.

No comments: