Saturday, August 18, 2007

Pasta með túnfiski, kapers og olivum

Hér er athyglisverð pastauppskrift sem líta má á sem tilbrigði við "Pasta með tómatbragði". Grunnurinn er sá sami með smá áherslumun. Hér er venjulegum lauk sleppt (en hvítlaukurinn heldur sér) og ólifur ásamt kapers mynda kjarnabragðið kringum túnfisk (sem ég nota oft í hinum réttinum). Þetta fann ég í Morgunblaðinu 26. júlí 2007 (bls. 36).

1. Eitt hvítlauksrif er steikt á pönnu upp úr ólífuolíu (2 msk.) þar til gylltri áferð er náð.
2. Tómatar (400 g. úr dós) eru settir út í og hrært. Salti og pipar bætt við.
3. Svartar ólifur (1 msk.), túnfiskur (1 dós, í olíu) og kapers (1 msk.) eru sett ofan í.
4. Hrærið ekki í sósunni, en setjið lok yfir pönnuna og látið krauma í 15 - 20 mínútur.
5. Pastað soðið (eftir leiðbeiningum). Í greininni er minnst á Rigatoni, en auðvitað má nota annað pasta.

Kokkurinn (sem kynnti uppskriftina) lagði áherslu á að setja 2-3 ausur af sósunni saman við pastað, hræra því saman. Sósan er svo borin fram í sér fati og sett yfir pastað á hverjum diski fyrir sig - ásamt parmesanosti.

Pastaskeljar með aspas og pesto

Þessa uppskrift fann ég í Meðlætisbókinni góðu (eftir Charlotte Grönlykke) og tók hana svolítið upp á mína eigin arma og breytti í fyrstu atrennu. Sósan virkaði eitthvað þunnildislega á mig þegar á reyndi svo ég bætti við rjómaosti (með kryddblöndu) og bingó! Rétturinn var dýrðlegur - en samt mjög einfaldur.

1. Sjóðið pastaskeljarnar (Gnocchi) eftir leiðbeiningum á pakka.
2. Skerið aspas í sneiðar (eina stóra dós) og tómatana (10 kirsuberjatómatar eða færri venjulegir. Þeir litlu eru fallegri en hinir eru safaríkari).
3. Hitið ólifuolíu á pönnu og steikið aspasinn létt.
4. Eftir nokkra stund er tómötunum bætt út í og látið steikjst við háan hita í nokkrar mínútur.
5. Bætið rjómaosti (t.d. með kryddbragði) á pönnuna og látið hann bráðna saman við blönduna (þetta er mín viðbót við uppskriftina).
6. Þegar hér er komið sögu er pastað líklega tilbúið. Hellið því í sigti og hrærið pestói (fjórum matskeiðum) saman við það.
7. Blandið pastanu saman við sósuna.

Hér nýtur aspasinn sín. Ég hef ekkert á móti aspas í dós. Yfirleitt er mælt með ferskum aspas en ég næ aldrei neinum árangri með hann. Dósamaturinn er líka mjög fljótlegur og þarf ekki að sjóða sérstaklega (til að mýkja). Green Giant er mjög gott (og klassískt) merki. Mér hefur fundist stóru dósirnar betri en litlu (þær eru meyrari).

Pasta með laxi

Hérna er pastaréttur með laxi sem snarvirkaði, nema það að hlutföllin í uppskriftinni virðast pastanu sjálfu full mikið í hag. Ég myndi hafa minna pasta, hlutfallslega, eða meira af sósunni. En svona hljómar þetta beint úr bókinni, sem er "Lærum að elda ítalskt" (bls. 21) en ég bæti við athugasemdum innan sviga.

Pasta með laxi (Tagliatelle al salmone)

1. Byrjið á því að sjóða pastað (Tagliatelle 275 grömm - eða minna, má vera grænt) eftir leiðbeiningum á pakkningunni. Útbúið sósuna á meðan pastað sýður.

2. Skerið aspasinn í bita (150 g. grænn, - ferskur segir bókin en ég notaði "Green Giant" upp úr dós, og hann er frábær og verður ögn maukaður við hitun, en heldur sér vel)

3. Bræðið smjörið (u.þ.b. 50 g.) á pönnu og látið aspasbitana krauma í 1-2 mínútur

4. Bætið sítrónusafa (úr hálfri sítrónu) á pönnuna og látið krauma áfram við frekar lágan hita í 5 mínútur.

5. Skerið laxinn í bita (ég notaði flak sem roðflett var í fiskbúðinni fyrir mig - beinlaust).

6. Hellið rjómanum (1 dl.) yfir aspasinn, kryddið með salti og pipar og bætið laxinum á pönnuna. Leggið lok á og slökkvið undir þar til pastað er soðið.

7. Bragðbætið sósuna með salti og pipar (þetta er kannski óþarfi fyrst búið er að salta og pipra áður)

8. Hellið pastanu í sigti og setjið á fat (hér er tilvalið að bæta ólifuolíu og parmesanosti við). Hellið sósunni yfir.

Þessi máltíð var dýrðleg og aspasinn passaði einstaklega vel við laxinn. Mæli eindregið með þessu. Hollt og tiltölulega fljótlegt. Tilvalið að bæta agúrku við eða salati þar sem hún nýtur sín.

Sunday, August 5, 2007

Gratin með eggaldini og kurbit

Við útbjuggum þennan rétt í fyrsta skipti verslunarmannahelgina 2007 með Ásdísi og Togga. Höfðum það huggulegt heima við á meðan þjóðin var á faraldsfæti. Rétturinn kom okkur öllum verulega á óvart. Hann var bragðmildur en samt fullur af alls kyns bragði. Þar spilar edikið stórt hlutverk ásamt parmesanosti í sósunni. Einnig er gaman að finna seigt eggaldinið og kúrbítinn undir tönn. Uppskriftin er fengin úr bókinni "Meðlæti" (á dönsku "Tilbehör") eftir Charlotte Grönlykke. Góður matur sem meðlæti en einnig stendur vel fyrir sínu einn og sér (ásamt salati).

GRATÍN MEÐ EGGALDINI OG KÚRBÍT (bls. 60)

1. Hitið ofninn í 185 gráður
2. Einn stór laukur er skorinn og glæraður á pönnu í ólifuolíu. Látinn til hliðar.
3. Eitt stór eggaldin er skorið í teninga og hitað á pönnu upp úr slatta af ólifuolíu, ca. 5 mín.
4. Kúrbít (einn stór eða tveir litlir) er bætt við, skornum í sneiðar. Mallar saman í 10. mín.
5. Kúrbíts/eggaldinsblöndunni er blandað við laukinn og hrært saman. Saltað og piprað.
6. Þessari blöndu er hellt í smurt eldfast fat.

7. Fimm egg eru þeytt í stórri skál.
8. Matskeið af olíunni er bætt út í ásamt 1 dl. af balsamediki.
9. Rifnum parmesanosti (ca. 150-200 g.) er bætt út í eggjablönduna. Saltað og piprað.

10. Eggjablöndunni er hellt yfir grænmetisblönduna í eldfasta fatinu.
11. Álpappír er settur yfir fatið svo að maturinn bakist jafnt (en ekki of mikið að ofan) og sett inn í forhitaðan ofninn.
12. Eftir um það bil 35-40 mínútur er fatið tekið út, osti (frjáls val) stráð yfir (um það bil 50-100 gr.).
13. Núna fer maturinn aftur inn, án álpappírsins, og hitað í 15 mínútur í viðbót. Undir lokin er í lagi að setja á "grill" til að maturinn gyllist að ofanverðu.

Borið fram sem meðlæti eða sem aðalréttur (og þá mæli ég með kartöflusalati (sem fæst úti í búð) sem meðlæti ásamt fersku salati þar sem tómatar eru aðaluppistaðan).

p.s. Bókin talar um að maturinn bakist í ofninum í vatnsbaði (í lið 11-12) en mér finnst það óþarfi. Kannski verður eggjahræran þéttari og jafnari þannig, en það eru smámunir.

Saturday, July 21, 2007

Gamaldags pönnukökur

Nú til dags er hægt að kaupa tilbúið pönnukökudeig (bara eftir að bæta við eggjum og vökva) og þeyta yfir með tilbúnum jurtarjóma, svokölluðum. Það er í mínum munni eins og útþynntur fjörusandur með sápufroðu. Okei, ég ýki aðeins, en samt er það í áttina. Notalegheit nútímalifnaðarhátta firra okkur ánægjunni af því að gera hlutina sjálf, lifa lífinu og komast í snertingu við alvöru hluti. Pönnukökudeig af gamla skólanum er hluti af því þessu góða lífi sem við megum ekki fara á mis við.

Eflaust eru til margar útgáfur af pönnukökudeigi en við Vigdís höfum alltaf stuðst við sömu uppskriftina úr Gestgjafanum (5. tbl. 2006). Til að þurfa ekki alltaf að leita að blaðinu (í annars vel skipulögðu safni Gestgjafablaða) er ágætt að geyma hana hér - fyrir okkur (og alla hina).

3 egg
1/2 L mjólk
1 tsk vanilludropar (eða sítrónudropar)
125 g hveiti (eða eftir þörfum)
2 msk sykur
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
50 g smjör

1. Þeytið saman egg, mjólk og vanilludropa
2. Blandið saman þurrefnunum (hveiti, sykri, lyftidufti og salti).
3. Hrærið þurrefnunum saman við mjólkurblönduna (þar til blandan er slétt og kekkjalaus). Bætið við ögn af hveiti ef blandan virðis of þunn eða örlitlu af mjólk ef hún virðist of þykk.

Síðan er bara að hella 2-3 matskeiðum af soppunni á pönnukökupönnu. Lýsingin í Gestgjafanum á þessari vinnu er býsna nákvæm (og vísa ég hér með þangað) en það sem virðist mikilvægast er að hafa pönnuna ekki of heita.

Síðan er stungið upp á nokkrum mismunandi fyllingum.
1. Rabarbarasulta og rjómi. Klassískt.
2. Þeyttur rjómi bragðbættur með Grand Marnier og ferskir niðurskornir ávextir (t.d. ferskjur úr dós).
3. Mjúkur Mascarpone-ostur, blandaður vanilluskyri og hlynssýrópi. Bláberjum bætt út í ásamt muldun hnetum (valhnetum eða pekanhnetum).
4. Mjúkur vanilluís með volgri karamellusósu, eða súkkulaðisósu (eða hvoru tveggja).
5. Súkkulaðibúðingur með söxuðum jarðarberjum og rifnu súkkulaði.
6. Sýrður rjómi (36%), bragðbættu svolitlu sérríi, og hindber (fersk eða frosin).

Í þessu tölublaði Gestgjafans er einnig fjallað um sögu pönnukökubaksturs, sem er afar áhugaverður.

Tuesday, July 17, 2007

Grunnpasta í ostasósu

Einhverju sinni, fyrir mörgum árum (rétt fyrir aldamótin), var ég staddur í matvörubúð. Þá bjó ég á Hellu og birgði mig gjarnan upp af mat í Reykjavík þegar ég var í helgarfríi. Ég var með einhverja pastauppskrift í huga og leitaði að heppilegum osti og orðaði það upphátt við einhvern nærstaddan að ég væri að leita að þessum tiltekna osti fyrir pastauppskrift. Þá vatt vegfarandinn sér að mér og sagði að ég gæti bara reddað góðri pastasósu með kryddosti og kaffirjóma:

"Þú hitar bara ostinn varlega og þegar hann hefur bráðnar bætirðu rjómanum við í áföngum þar til sósan er passlega þykk".

Þetta virtist vera húsmóðir af gamla skólanum svo ég tók fullt mark á henni og keypti mér álitlegan kryddost og rjóma. Síðan þá hefur uppskriftin reynst mér vel sem grunnur að ostapasta. Ég sker stundum ólífur yfir og passa upp á að hafa líka svolítið af parmesan með, ef það er til. Með fersku salati, eða bara niðurskorinni gúrku, er maturinn veislufæða með lágmarks fyrirhöfn.

Oftast sýð ég tortellini með þessu (fylltir pastahringir) sem veita þessari einföldu uppskrift meiri fyllingu.

(sjá meðferð á pasta í umfjöllunni um Grunnpasta með tómatbragði)

Pasta með skelfiski

Mér til hvatningar set ég þessa færslu inn án uppskriftar. Hún kemur þvi fljótlega.