Wednesday, December 6, 2006

Eggaldin í ofni


Eggaldin í ofni
Originally uploaded by Steiniberg.
Þennan rétt fundum við Vigdís í fylgiblaði Moggans (Lifun) í byrjun mars 2005 og vorum fljót að prófa hann. Hráefnið er svolíið dýrt og maturinn afar fituríkur (mikil olía og ostur) en að öðru leyti er þetta hentugur og þægilegur réttur, svo ekki sé minnst á gómsætur. Þetta er eggaldinréttur með parmesanosti og mozzarella í ofni ásamt tómötum og ólífuolíu.

Ég byrja á því að smyrja eggaldinsneiðar (skornar langsum) með ólífuolíu. Þetta er svolítið löðrandi vinna þannig að mér finnst ágætt að gera það á kaldri pönnunni sem verður hvort eð er olíuborin. Þetta er lang snyrtilegast svona. Síðan er eggaldinið hitað upp úr olíunni þar til aldinsneiðarnar eru fallega gullbrúnar. Þetta má þess vegna gera með góðum fyrirvara snemma dags og halda áfram seinna um daginn og leyfa eggaldinsneiðunum að sjúga betur í sig olíuna (en það er ónauðsynlegt samt sem áður).

Eftir þetta er ofninn hitaður og þá er aðeins lítilræði eftir. Sneiðunum er raðað í eldfast fat, saltað og piprað, maukuðum tómat úr dós dreift yfir ásamt vænni lófafylli af grænum ólífum (skornum í tvennt). Yfir þetta er fínt að rífa parmesanost, skera svo mozzarella með hníf í þunnar sneiðar og raða yfir og inn í ofn. Það er allt og sumt.

Uppskriftin hljóðar reyndar upp á tvö lög af öllu gumsinu en þetta er samt mjög sveigjanlegur réttur og eflaust hægt að nota sem grunn í ýmislegt. Aðalatriðið er að olíubera eggaldinið vel - og nota gott hráefni. Þá getur þetta ekki klikkað. Það gerir líka heilmikið fyrir réttinn ef maður tálgar parmesan yfir í litlum flísum ásamt því að rífa hann. Það er girnilegra að finna hann undir tönn öðru hvoru.

1 comment:

Unknown said...

Þetta er mjög girnileg uppskrift. Allt hráefnið er mér að skapi en verst að ég á ekki neinn ofn.

Ég prófa þennan rétt í Stokkhólmi. Ég er strax farin að hlakka til :-)