Tuesday, July 17, 2007

Grunnpasta í ostasósu

Einhverju sinni, fyrir mörgum árum (rétt fyrir aldamótin), var ég staddur í matvörubúð. Þá bjó ég á Hellu og birgði mig gjarnan upp af mat í Reykjavík þegar ég var í helgarfríi. Ég var með einhverja pastauppskrift í huga og leitaði að heppilegum osti og orðaði það upphátt við einhvern nærstaddan að ég væri að leita að þessum tiltekna osti fyrir pastauppskrift. Þá vatt vegfarandinn sér að mér og sagði að ég gæti bara reddað góðri pastasósu með kryddosti og kaffirjóma:

"Þú hitar bara ostinn varlega og þegar hann hefur bráðnar bætirðu rjómanum við í áföngum þar til sósan er passlega þykk".

Þetta virtist vera húsmóðir af gamla skólanum svo ég tók fullt mark á henni og keypti mér álitlegan kryddost og rjóma. Síðan þá hefur uppskriftin reynst mér vel sem grunnur að ostapasta. Ég sker stundum ólífur yfir og passa upp á að hafa líka svolítið af parmesan með, ef það er til. Með fersku salati, eða bara niðurskorinni gúrku, er maturinn veislufæða með lágmarks fyrirhöfn.

Oftast sýð ég tortellini með þessu (fylltir pastahringir) sem veita þessari einföldu uppskrift meiri fyllingu.

(sjá meðferð á pasta í umfjöllunni um Grunnpasta með tómatbragði)

No comments: