Monday, July 16, 2007

Kúrbítsbaka með reyktri skinku og basiliku

Núna nýlega prófuðum við böku sem gaf góða raun. Hún byggir á kúrbít (talsvert mikið af honum) og reyktri skinku (sem eflaust má skipta út fyrir reyktan fisk ef menn vilja ekki kjöt) og ferskri basiliku. Basilikan er algerlega ómissandi í þessari uppskrift.




"Kúrbítsbaka með basil og reyktri skinku" (bls.22).

Eins og sjá má er botninn í þessari uppskrift ekki sá sami og í hinni bökuuppskriftinni sem ég var að setja inn. Aðferðin við þessa er sú sama (sjá lýsingu í hinni færslunni, sem kallast "Bökugerð og grunnbaka"). Ég get ekki séð að botninn sé slíkt lykilatriði að það þurfi að breyta um milli uppskrifta. Einnig má bjarga sér með því að kaupa tilbúið deig (eða útbúa það með muldu kexi og hella bráðnu smjöri yfir). En allavega kemur uppskriftin hér eins og hún birtist í Gestgjafanum 2002 (9.tbl.):

BOTN
Hveiti (150 g.)
Hveitiklíð (1 dl.)
Smjör (80 g.)
Egg (eitt stykki)

FYLLING
Kúrbitar - saxaðir (2 stk.)
Hvítlauksrif - pressuð (2 stk.)
Olía (til steikingar)
Basilika - fersk (eitt búnt)
Rjómaostur - stofuheitur (200 g.)
Egg (sex stykki)
Partýskinka (Ali) - söxuð (200 g.)
Pipar (svartur)
Salt
Ostur - rifinn (150 g.)

1. Léttsteikið kúbítinn og hvítlaukinn í olíu á pönnu.
2. Maukið eða fínsaxið basilblöðin með örlítilli olíu.
3. Hrærið saman rjómaost og egg í hrærivél.
4. Blandið öllu hinu saman við eggjahræruna og hellið í bökubotninni.
5. Bakið í 30-40 mín. við 180 gráður.

Þetta er framreitt með fersku salati, ásamt tómötum og fetaosti (ef menn vilja). Ekki er verra að hafa snittubrauð eða hvítlauksbrauð með og einhverja grænmetissósu til áhersluauka.

No comments: