Sunday, July 15, 2007

Bökugerð og grunnbaka

Þegar við Vigdís vorum að kynnast, fyrir um fimm árum síðan (2002), keypti hún Gestgjafablað (9.tbl) sem okkur þótti báðum girnilegt. Þetta var svokallað klúbbblað og í því var að finna ýmsar uppskriftir að bökum. Síðan þá hefur hún verið meira en liðtæk í að reiða fram dýrindis bökur, mikið hollustufæði sem höfðar til allra að því er virðist. Hún studdist upphaflega við eina uppskrift sem hún hefur síðan þá vikið út frá út frá eigin geðþótta. Hér kynni ég hana til leiks sem eins konar grunnuppskrift (þó hún sé ekki upphaflega hugsuð þannig) vegna þess hversu auðvelt er að leika sér með hana. Ég ætla að taka uppskriftina því sem næst beint upp úr Gestgjafanum.

Gestgjafinn leggur áherslu á að botninn sé svolitil kúnst og að margir eigi í vandræðum með hann. Ég birti því hér í upphafi leiðbeiningar að botnagerð beint upp úr blaðinu en legg samt áherslu á það í leiðinni að auðvelt er að kaupa tilbúna botna eða nota jafnvel Ritz-kex eða Tuc-kex í staðinn (sem er mulið í botninn og bráðnu smjöri hellt yfir). Þessu mæli ég með í upphafi, þegar fyrsta bakan er löguð. Hér kemur hins vegar, að sögn blaðsins, skotheld aðferð sem notast við allar gerðir af botnum, ef menn vilja taka þetta allt frá grunni:

"Látið hveiti og smjög í matvinnsluvél og myljið saman í duft. Látið eina og eina msk. af köldu vatni út í þar til deigið hleypur saman í kúlu. Takið úr vélinni og ef ykkur finnst deigið of blautt bætið þá örlitlu hveiti út í. Búið til þykka köku úr deiginu í höndunum, pakkið í plastfilmu og látið standa í kæli í 1-2 tíma. Takið deigið úr kælinum og fletjið út á hveitistráðan flöt með kökukefli. Snúið því til á meðan þið fletjið það svo að botninn verði allur jafnþunnur. Það er kostur að ná botninum þunnum, þá bakast hann betur. Leggið deigbotninn nú í bökuformið. Ef þið treystið ykkur ekki til að gera það í heilu lagi er gott að brjóta botninn saman í fernt eins og pönnuköku og leggja hann í formið og fletta honum út þar. Best er að bretta umframdeig inn af brúnum og pressa niður með fingrunum, svolítið eins og þegar faldur á flík er saumaður niður."

Þessi aðferð á við um allar gerðir botna, meðal annars þá sem gefin er upp í uppskrifitinni sem nýst hefur Vigdísi hvað best sem grunnur að fleiri bökum og alls kyns tilbrigðum:

"Sveppabaka með gráðaosti" (bls.23).

BOTN:
Hveiti (200 g.)
Smjör (50 g.)
Ostur - rifinn (150 g.)
egg (eitt stk.)

FYLLING:
Sveppir, sneiddir (500 g.)
Smjörvi (til steikingar)
Pipar (svartur)
Hvítlaukssalt
Rjómaostur - stofuheitur (300 g.)
Egg (sex stykki)
Rjómi (1 dl.)
Ostur - rifinn (100 g.)
Gráðaostur - gróft mulinn (1 stykki)

Ath. gert er ráð fyrir að botninn sé tilbúinn í forminu.
1. Steikið sveppina í Smjörva og kryddið þa með hvítlaukssalti og pipar.
2. Hrærið saman rjómaost, egg og rjóma. Kryddið aðeins með pipar og hvítlauksalti.
3. Blandið sveppum og rifnum osti saman við og hellið í botninn.
4. Stráið muldum gráðaosti yfir.
5. Bakið í 30 - 40 mín. við 180 gráðu hita.


Sjáið bara hvað þetta er einfalt þegar maður þarf ekki að spá í botninn sem slíkan. Þegar maður er kominn með tilfinningu fyrir þessu er gott að fara, eftir á, að spá í að útbúa botnana sjálfur.

No comments: