Monday, July 9, 2007

Sumarsúpan

Þessi súpa er í algjöru uppáhaldi hjá okkur Vigdísi. Við útbúum hana nokkrum sinnum á hverju sumri vegna þess hve fersk hún er og létt í maga. Þess vegna köllum við hana einfaldlega "Sumarsúpuna" (með greini). Bragðið kemur gestum iðulega á óvart enda hráefnið ekki sérlega líklegt á pappírnum til að passa saman (rækjur, kál, ferskjur, tómatar og karrí).



Sumarsúpan
Originally uploaded by Steiniberg.




Uppskriftina er að finna í hinu vinsæla eldhúsriti "Vinsælir eftirlætisréttir" sem gefið var út í stakblaðaformi fyrir mörgum árum. Þar kallast súpan "Tómatsúpa með ferskjum og rækjum".

HRÁEFNI
Laukur (1 stk.)
Hvítlauksrif (1-3 stk.)
Matarolía
Karrí (1-2 tsk.)
Tómatar - niðursoðnir (ein dós - 400 g.)
Fisksoð (4 dl. vatn + teningar)
Ferskjur - niðursoðnar frá Dole (1 dós)
Rjómi (2,5 dl.)
Ferskjusafi (úr dósinni)
Rækjur (200 g.)
Kínakálshaus (fjórðungur)

1. Saxið lauk og hvítlauk. Hitið matarolíu í potti, stráið karríi yfir og léttsteikið lauk og hvítlauk.
2. Brytjið niðursoðna tómata og setjið í pottinn ásamt fisksoði. Látið krauma í 5-10 mín.
3. Skerið feskjurnar í bita og setjið út í súpuna ásamt rjóma. Bragðbætið með örlitlum ferskjusafa. Hleypið upp að suðu.
4. Takið pottinn af hellunni og setjið rækjur út í heita súpuna (látið ekki sjóða).
5. Skerið kínakálið í mjóa strimla, setjið í súpuskálarnar og hellið súpunni yfir.

Mælt er með hvítvíni og brauði sem meðlæti. Ég ber nú yfirleitt vatn fram með þessari súpu ásamt brauði enda tími ég ekki að spilla ríkulegu bragðinu af súpunni sem situr í manni lengi á eftir.

No comments: