Sunday, August 5, 2007

Gratin með eggaldini og kurbit

Við útbjuggum þennan rétt í fyrsta skipti verslunarmannahelgina 2007 með Ásdísi og Togga. Höfðum það huggulegt heima við á meðan þjóðin var á faraldsfæti. Rétturinn kom okkur öllum verulega á óvart. Hann var bragðmildur en samt fullur af alls kyns bragði. Þar spilar edikið stórt hlutverk ásamt parmesanosti í sósunni. Einnig er gaman að finna seigt eggaldinið og kúrbítinn undir tönn. Uppskriftin er fengin úr bókinni "Meðlæti" (á dönsku "Tilbehör") eftir Charlotte Grönlykke. Góður matur sem meðlæti en einnig stendur vel fyrir sínu einn og sér (ásamt salati).

GRATÍN MEÐ EGGALDINI OG KÚRBÍT (bls. 60)

1. Hitið ofninn í 185 gráður
2. Einn stór laukur er skorinn og glæraður á pönnu í ólifuolíu. Látinn til hliðar.
3. Eitt stór eggaldin er skorið í teninga og hitað á pönnu upp úr slatta af ólifuolíu, ca. 5 mín.
4. Kúrbít (einn stór eða tveir litlir) er bætt við, skornum í sneiðar. Mallar saman í 10. mín.
5. Kúrbíts/eggaldinsblöndunni er blandað við laukinn og hrært saman. Saltað og piprað.
6. Þessari blöndu er hellt í smurt eldfast fat.

7. Fimm egg eru þeytt í stórri skál.
8. Matskeið af olíunni er bætt út í ásamt 1 dl. af balsamediki.
9. Rifnum parmesanosti (ca. 150-200 g.) er bætt út í eggjablönduna. Saltað og piprað.

10. Eggjablöndunni er hellt yfir grænmetisblönduna í eldfasta fatinu.
11. Álpappír er settur yfir fatið svo að maturinn bakist jafnt (en ekki of mikið að ofan) og sett inn í forhitaðan ofninn.
12. Eftir um það bil 35-40 mínútur er fatið tekið út, osti (frjáls val) stráð yfir (um það bil 50-100 gr.).
13. Núna fer maturinn aftur inn, án álpappírsins, og hitað í 15 mínútur í viðbót. Undir lokin er í lagi að setja á "grill" til að maturinn gyllist að ofanverðu.

Borið fram sem meðlæti eða sem aðalréttur (og þá mæli ég með kartöflusalati (sem fæst úti í búð) sem meðlæti ásamt fersku salati þar sem tómatar eru aðaluppistaðan).

p.s. Bókin talar um að maturinn bakist í ofninum í vatnsbaði (í lið 11-12) en mér finnst það óþarfi. Kannski verður eggjahræran þéttari og jafnari þannig, en það eru smámunir.

No comments: