Saturday, August 18, 2007

Pasta með laxi

Hérna er pastaréttur með laxi sem snarvirkaði, nema það að hlutföllin í uppskriftinni virðast pastanu sjálfu full mikið í hag. Ég myndi hafa minna pasta, hlutfallslega, eða meira af sósunni. En svona hljómar þetta beint úr bókinni, sem er "Lærum að elda ítalskt" (bls. 21) en ég bæti við athugasemdum innan sviga.

Pasta með laxi (Tagliatelle al salmone)

1. Byrjið á því að sjóða pastað (Tagliatelle 275 grömm - eða minna, má vera grænt) eftir leiðbeiningum á pakkningunni. Útbúið sósuna á meðan pastað sýður.

2. Skerið aspasinn í bita (150 g. grænn, - ferskur segir bókin en ég notaði "Green Giant" upp úr dós, og hann er frábær og verður ögn maukaður við hitun, en heldur sér vel)

3. Bræðið smjörið (u.þ.b. 50 g.) á pönnu og látið aspasbitana krauma í 1-2 mínútur

4. Bætið sítrónusafa (úr hálfri sítrónu) á pönnuna og látið krauma áfram við frekar lágan hita í 5 mínútur.

5. Skerið laxinn í bita (ég notaði flak sem roðflett var í fiskbúðinni fyrir mig - beinlaust).

6. Hellið rjómanum (1 dl.) yfir aspasinn, kryddið með salti og pipar og bætið laxinum á pönnuna. Leggið lok á og slökkvið undir þar til pastað er soðið.

7. Bragðbætið sósuna með salti og pipar (þetta er kannski óþarfi fyrst búið er að salta og pipra áður)

8. Hellið pastanu í sigti og setjið á fat (hér er tilvalið að bæta ólifuolíu og parmesanosti við). Hellið sósunni yfir.

Þessi máltíð var dýrðleg og aspasinn passaði einstaklega vel við laxinn. Mæli eindregið með þessu. Hollt og tiltölulega fljótlegt. Tilvalið að bæta agúrku við eða salati þar sem hún nýtur sín.

No comments: