Saturday, August 18, 2007

Pastaskeljar með aspas og pesto

Þessa uppskrift fann ég í Meðlætisbókinni góðu (eftir Charlotte Grönlykke) og tók hana svolítið upp á mína eigin arma og breytti í fyrstu atrennu. Sósan virkaði eitthvað þunnildislega á mig þegar á reyndi svo ég bætti við rjómaosti (með kryddblöndu) og bingó! Rétturinn var dýrðlegur - en samt mjög einfaldur.

1. Sjóðið pastaskeljarnar (Gnocchi) eftir leiðbeiningum á pakka.
2. Skerið aspas í sneiðar (eina stóra dós) og tómatana (10 kirsuberjatómatar eða færri venjulegir. Þeir litlu eru fallegri en hinir eru safaríkari).
3. Hitið ólifuolíu á pönnu og steikið aspasinn létt.
4. Eftir nokkra stund er tómötunum bætt út í og látið steikjst við háan hita í nokkrar mínútur.
5. Bætið rjómaosti (t.d. með kryddbragði) á pönnuna og látið hann bráðna saman við blönduna (þetta er mín viðbót við uppskriftina).
6. Þegar hér er komið sögu er pastað líklega tilbúið. Hellið því í sigti og hrærið pestói (fjórum matskeiðum) saman við það.
7. Blandið pastanu saman við sósuna.

Hér nýtur aspasinn sín. Ég hef ekkert á móti aspas í dós. Yfirleitt er mælt með ferskum aspas en ég næ aldrei neinum árangri með hann. Dósamaturinn er líka mjög fljótlegur og þarf ekki að sjóða sérstaklega (til að mýkja). Green Giant er mjög gott (og klassískt) merki. Mér hefur fundist stóru dósirnar betri en litlu (þær eru meyrari).

No comments: